Frederick Marryat
Frederick Marryat var enskur sjóliðsforingi og rithöfundur sem á sínum tíma naut gríðarlegra vinsælda og langt eftir sinn dag. Voru margar bækur hans þýddar á fjölmörg tungumál, m.a. á íslensku, s.s. Börnin í Nýskógum, Jón miðskipsmaður, Landnemarnir í Kanada og Sjóræninginn (Víkingurinn).
Marryat fæddist í Lundúnum, en faðir hans var þar vel stæður kaupmaður og sat á þingi um tíma. Hugur Marryats stóð til sjómennsku, en það var ekki það sem foreldrar hans höfðu hugsað sér að hann tæki sér fyrir hendur. Lögðu þau blátt bann við því að hann færi á sjó. En drengurinn var ákveðinn og lét sig ekki. Strauk hann nokkrum sinnum að heiman og reyndi að ráða sig á skip í óþökk foreldra sinna áður en þau létu undan vilja hans. Það varð úr að hann gekk í breska sjóherinn 14 ára gamall og gerðist léttadrengur (miðskipsmaður) á skipi hennar hátignar Imperieuse. Var það mikil eldskírn fyrir óharðnaðan unglinginn og lenti hann þar í bardögum við óvinaheri bæði á sjó og landi. Þá er kunn saga af því þegar hann stökk í sjóinn eftir skipsfélaga sínum sem féll útbyrðis og bjargaði honum. Árið 1809 þegar hann hafði verið þrjú ár á sjó veiktist hann af malaríu og var fluttur heim. Ekki lét hann það stoppa sig lengi og strax og hann hafði jafnað sig á malaríunni hélt hann aftur til sjós og nú á skipi hennar hátignar Centaur. Þar gat hann sér fljótt gott orð fyrir dugnað og ósérhlífni og endurtók hetjudáð sína er hann bjargaði öðrum skipverja sem fallið hafði útbyrðis með því að stinga sér eftir honum. Árið 1812 var hann hækkaður í tign og gerður að liðþjálfa og þremur árum síðar varð hann skipherra.
Skömmu eftir það komst friður á og Marryat lagðist í alls kyns vísindalegar rannsóknir og fann m.a. upp sérstaka gerð af björgunarbát sem vakti mikla athygli. Fékk hann við það gælunafnið „Björgunarbáturinn“.
Árið 1819 kvæntist hann Catherine Sharp. Eignuðust þau 7 dætur og 4 syni. Árið 1830 sagði hann sig úr hernum og lét af sjómennsku. Hafði hann þá gefið út fyrstu skáldsöguna, Sjóliðsforingjann (1829) og vildi snúa sér alfarið að skriftum.
Frá því hann hélt í land komu út bækur eftir hann nánast á hverju ári allt þar til hann lést 1848. Nutu bækur hans hóflegra vinsælda í fyrstu, en með útkomu bókarinnar Jón miðskipsmaður (Midshipman Easy) árið 1836 var brautin rudd og eftir það má segja að allar bækur hans hafi verið metsölubækur. Á árunum 1832 til 1835 ritstýrði Marryat auk þess tímaritinu The Metropolitan Magazine.
Marryat bjó um tíma í Brussel og ferðaðist mikið, m.a. til Kanada og Bandaríkjanna. Árið 1839 settist hann að í London og var töluvert áberandi í menningarlífinu þar. Var hann m. a. í bókmenntaklúbbi með Dickens og fleiri kunnum rithöfundum.
Frederick Marryat lést 8. ágúst 1848.
Sögur Marryats voru á margan hátt einkennandi fyrir þann tíma sem hann lifði og viðhorfin sem birtast í sögunum eru ríkjandi viðhorf manns í hans þjóðfélagsstöðu. Er rétt að hafa það í huga þegar hann er lesinn í dag. Það sem þó stendur upp úr sögum Marryats og gefur þeim aukna sérstöðu og bókmenntalegt gildi er að hann byggir sögur sínar á eigin reynslu og upplifunum.
Höfðu sögur hans áhrif á marga af mestu höfundum kynslóðanna sem á eftir komu. Höfundar eins og Joseph Conrad, Jóhann Magnús Bjarnason, C. S. Forester, Patrick O'Brian og Ernest Hemingway voru miklir aðdáendur hans og má merkja áhrif frá honum í sögum þeirra ef grannt er skoðað.
Í upphafi voru sögur Marryats lesnar af öllum aldurshópum en eftir dauða hans voru sögur hans einkum lesnar af ungu fólki. Er það synd því bækur hans búa yfir miklum töfrum og stílsnilli sem henta öllum aldurshópum.
Til gamans má geta þess að dóttir Marryats , Florence, varð einnig nokkuð kunn sem rithöfundur og sonur hans Francis Samuel lauk við sögu hans The Little Savage að honum gengnum.
Hér fyrir neðan má sjá yfirlit um þær sögur sem hann samdi.
Bækur eftir Frederick Marryat.
- The Naval Officer, or Scenes in the
Life and Adventures of Frank Mildmay. (1829) - The King's Own. (1830)
- Newton Forster or, the Merchant Service. (1832)
- Peter Simple. (1834)
- Jacob Faithful (Jakob ærlegur). (1834)
- The Pacha of Many Tales. (1835)
- Mr. Midshipman Easy (Jón miðskipsmaður). (1836)
- Japhet, in search of a Father (Jafet í föðurleit). (1836)
- The Pirate (Sjóræninginn). (1836)
- The Three Cutters. (1836)
- Snarleyyow, or The Dog Fiend. (1837)
- Rattlin the Reefer (meðhöf. Edward Howard). (1838)
- The Phantom Ship. (1839)
- Diary in America. (1839)
- Olla Podria. (1840)
- Poor Jack. (1840)
- Masterman Ready, or the Wreck of the Pacific. (1841)
- Joseph Rushbrook, or the Poacher. (1841)
- Percival Keene. (1842)
- Monsieur Violet. (1843)
- Settlers in Canada (Landnemarnir í Kanada). (1844)
- The Mission, or Scenes in Africa. (1845)
- The Privateersman, or One Hundred Years Ago. (1846)
- The Children of New Forest (Börnin í Nýskógi). (1847)
- The Little Savage. (1848)
Kom út eftir dauða höfundar. (Sonur höfundar lauk við hana) - Valerie. (1848) - Kom út eftir dauða höfundar.